Ferill 328. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 328 . mál.


599. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 46 27. júní 1985, með síðari breytingum.

Frá landbúnaðarnefnd.



1. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr stafliður (er verði G-liður), svohljóðandi:
     Fram til 1. september 1993 getur landbúnaðarráðherra, þrátt fyrir ákvæði 4. málsl. 20. gr., heimilað innheimtu verðskerðingargjalds, enda liggi fyrir ósk um það frá stjórn Stéttarsambands bænda.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er flutt að ósk landbúnaðarráðherra. Í 4. málsl. 20. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 46/1985, sbr. 6. gr. laga nr. 112/1992, er kveðið á um að forsenda fyrir töku verðskerðingargjalds sé að fulltrúafundur Stéttarsambands bænda hafi óskað eftir töku þess. Fyrir liggur að heimildir til töku verðskerðingargjalds yrðu ekki nýttar nema að mjög takmörkuðu leyti fyrst um sinn og þá eingöngu varðandi nautgripa- og hrossakjöt. Því þykir helst til mikið í lagt að kveðja saman fulltrúafund Stéttarsambands bænda enda til þess ætlast að samráðs verði leitað við stéttarsambandsfulltrúa varðandi framkvæmd þessara heimilda.